Á heimasíðu Námsgagnastofnunnar er að finna bæði fróðlegt og skemmtilegt efni fyrir yngri kynslóðina sem fjallar um strönd og haf. Þeir sem eldri eru hafa þó ekki síður gaman af að skoða þetta efni. Fjaran og hafið: http://iis.nams.is/hafid hefur að geyma myndbönd sem hægt er að skoða á vefnum og á http://www.namsgagnastofnun.is/komdu/index.htm er að finna síðuna Komdu og skoðaðu, sem er með fjölbreyttu námsefni á vef með kennsluleiðbeiningum, leikjahugmyndum, gagnvirkum verkefnum, sögum og fleira. Efnið er einkum ætlað nemendum í 1.– 4. bekk og við gerð þess var tekið mið af áherslum í nýrri námskrá í náttúrufræði og samfélagsgreinum. Útgáfan á vefnum fylgir hverri nemendabók.
|
|
Fréttabréf Trossunnar komið út í annað sinn! |
Nú er komið út fréttabréf samevrópska verkefnisins FISHERNET: Fishing Cultural Heritage Network sem Stofnun Vilhjálms Stefánssonar tekur þátt í. Um er að ræða þriggja ára verkefni sem hlotið hefur styrk frá Menningaráætlun Evrópusambandins en lykilþátttakendur eru Galicia (Spánn), Noregur, Búlgaría, Ísland, Kýpur og Orkneyjar (Bretland). Verkefnið miðar að því að varðveita, miðla og nýta menningararf sem tengist sjósókn, umhverfisþekkingu sjómanna og sérstakri menningu fiskveiðisamfélaga. Framlag Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar er sérstaklega tengt fiskveiðimenningu á Íslandi, Grænlandi og Færeyjum. Íslenski hlutinn gengur undir nafninu Trossan og er að finna á vefslóðinni www.fishernet.is.
Í fréttabréfi FISHERNET kennir ýmissa grasa frá þátttakendum verkefnisins og má þar nefna umfjöllun um Foldal fiskverksmiðjuna í Finnmark í Noregi sem í dag er notuð sem menningarsetur nokkurs konar þar sem haldnir eru tónleikar, sýningar og hátíðir, en sem einnig er safn og náttstaður fyrir ferðamenn. Sagt er frá aðlögun fiskveiðisamfélaga á Orkneyjum að breyttum tímum og einnig er greint frá ferðum og næsta fundi verkefnisins sem haldinn verður í Reykjavík, á Siglufirði, Húsavík og Akureyri í maí næstkomandi. Hluti af dagskránni er ráðstefnan Auður hafs og stranda: Frumkvæði og nýsköpun til nýtingar menningararfs, sem haldin verður á Akureyri þann 7. maí 2010.
Hægt er að nálgast fréttabréfið á heimasíðu Trossunnar og er þar einnig að finna gagnlegt efni; greinar, ritgerðir og annað efni sem tengist sjávar- og strandmenningu á Íslandi og Norður-Atlantshafi og gæti sem best nýst til rannsókna hvers konar eða skemmtunar. |
Frá Sláturhúsi til Hvalasafns |
Nýtt sýningarsvæði var opnað í Hvalasafninu á Húsavík í lok júní 2009. Sýningin rekur sögu hússins og safnsins og sýnir breytingarnar sem urðu á húsinu frá því að vera byggt sem slátur- og frystihús Kaupfélags Þingeyinga til þess að þjóna Hvalasafninu eins og það er í dag. Brugðið er upp svipmyndum frá sláturhúsárunum og uppbyggingarárum Hvalasafnsins. Þetta er fróðleg og skemmtileg sýning um hvernig gamalt hús öðlast nýtt hlutverk.
From Slaughterhouse to Whale Museum A new exhibition was officially opened at the Whale Museum in Húsavík in June 2009. The exhibition tells the story of the building hosting the whale museum, which originally was the slaughterhouse and cold storage of Húsavík, but changed into a museum about whales. Pictures, artifacts, interactive slideshows in three languages and recorded testimonials document well how an old, unused building obtained a new purpose.
|
Fishernet í Galiciu á Spáni |
Nú nýlega var fjallað um samevrópska verkefnið Fishernet í dagblaðinu La Voz de Galicia, eða rödd Galicíu og var m.a. rætt við fulltrúa Íslands í því verkefni, Níels Einarsson forstöðumann Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar sem staðsett er á Akureyri. Titill greinarinnar er á frummálinu Muros lidera un plan europeo para recuperar la cultura marinera, sem útleggst eitthvað á þá leið að Muros (velþekktur strandbær í Galiciu) leiði samevrópska áætlun um endurreisn strandmenningar. Þeir sem eru svo ljónheppnir að skilja hrafl í spænsku geta lesið greinina í heild sinni hér. |
Samevrópskt verkefni, Fishernet |
Stofnun Vilhjálms Stefánssonar tekur þátt í samevrópsku verkefni um fiskveiðimenningu FISHERNET er heiti þriggja ára samevrópsks verkefnis sem hlotið hefur styrk frá Menningaráætlun Evrópusambandsins. Verkefnið miðar að því að varðveita, miðla og nýta menningararf sem tengist sjósókn, umhverfisþekkingu sjómanna og sérstakri menningu fiskveiðisamfélaga. Níels Einarsson forstöðumaður Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar tekur þátt í verkefninu fyrir hönd stofnunarinnar með áherslu á fiskveiðimenningu á Íslandi, Grænlandi og Færeyjum, en einnig verður haft samstarf við fjölmargar stofnanir, sérfræðinga og samtök sem á einn eða annan hátt sinna fiskveiðum og menningararfi á svæðinu, m.a. Menningarmiðstöð Þingeyinga á Húsavík.
Níels Einarsson, forstöðumaður Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar og forsvarsmaður verkefnisins Fishernet spjallaði um eflingu smábátaútgerðar í þætti Péturs Halldórssonar, Vítt og breitt á Rás 1, þann 22. janúar 2009. Hægt er að hlusta á þáttinn hér . |
|
|
|
<< Fyrsta < Fyrri 1 2 3 Næsta > Síðasta >>
|
Síða 2 af 3 |